Fréttir

Skráðu þig í klúbbinn!

Vilt þú vera meðlimur í Litla leikklúbbnum? Nú getur þú skráð þig í klúbbinn með því að fylla út skráningarformið okkar.

Engin skuldbinding fylgir skráningu en meðlimir fá regluleg fréttabréf og boð á fundi og viðburði klúbbsins.

Skráðu þig strax í dag og vertu með í fjörugum og skemmtilegum félagsskap!

Yfir 1200 manns mættu á Fiðlarann

Sýningum á Fiðlaranum á þakinu lauk með troðfullri lokasýningu þann 16. febrúar. Við gætum ekki verið ánægðari með viðtökurnar enda mættu yfir 1200 gestir á þessar 10 sýningar sem í boði voru.

Nú þegar sýningum er lokið er stjórn Litla leikklúbbsins þakklæti efst í huga, þakklæti til samfélagsins sem studdi svo vel við bakið á okkur með því að mæta vel í leikhúsið ig lofa sýninguna á samfélagsmiðlum og á götum úti. Stuðningurinn var líka veittur með allskonar aðstoð, styrkjum og velvild. Það er greinilegt að Litli leikklúbburinn á marga hauka í horni.

Síðast en ekki síst erum við þakklát fyrir hópinn sem stóð að uppfærslunni. Vinnan sem þessir snillingar lögðu á sig var á stundum þung og krefjandi en alltaf full gleði og sköpunarkrafti.

Næstu skref hjá klúbbnum er að sækja um að komast á fjalir Þjóðleikhússins sem athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins. Síðan þarf auðvitað að halda félagsfund og ákveða hvaða verkefni verður næst fyrir valinu. Stefnt er á að setja upp sýningu strax aftur í haust og því ekki seinna vænna að leggja höfuðið í bleyti.

Aðalfundur Litla leikklúbbsins 2023

Litli leikklúbburinn á Ísafirði boðar til aðalfundar í Rögnvaldarsal í Edinborgarhúsinu, fimmtudaginn 25. mai kl. 19.30.

Dagskrá aðalfundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Inntaka nýrra félaga.
3. Skýrsla formanns.
4. Skýrsla gjaldkera.
5. Lagabreytingar.
6. Kosning stjórnar, varamanna og skoðunarmanna reikninga.
7. Ný stjórn tekur við.
8. Hugmyndir um starfsemi næsta leikárs.
9. Önnur mál.

Boðið verður upp á léttar veitingar á fundinum og verkefni haustsins, uppsetning á söngleik í samstarfi við TÍ, kynnt.

Nýir og gamlir félagar hjartanlega velkomnir, vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Bestu kveðjur, stjórnin

Viðburður á Facebook