Fréttir

Yfir 1200 manns mættu á Fiðlarann

Sýningum á Fiðlaranum á þakinu lauk með troðfullri lokasýningu þann 16. febrúar. Við gætum ekki verið ánægðari með viðtökurnar enda mættu yfir 1200 gestir á þessar 10 sýningar sem í boði voru.

Nú þegar sýningum er lokið er stjórn Litla leikklúbbsins þakklæti efst í huga, þakklæti til samfélagsins sem studdi svo vel við bakið á okkur með því að mæta vel í leikhúsið ig lofa sýninguna á samfélagsmiðlum og á götum úti. Stuðningurinn var líka veittur með allskonar aðstoð, styrkjum og velvild. Það er greinilegt að Litli leikklúbburinn á marga hauka í horni.

Síðast en ekki síst erum við þakklát fyrir hópinn sem stóð að uppfærslunni. Vinnan sem þessir snillingar lögðu á sig var á stundum þung og krefjandi en alltaf full gleði og sköpunarkrafti.

Næstu skref hjá klúbbnum er að sækja um að komast á fjalir Þjóðleikhússins sem athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins. Síðan þarf auðvitað að halda félagsfund og ákveða hvaða verkefni verður næst fyrir valinu. Stefnt er á að setja upp sýningu strax aftur í haust og því ekki seinna vænna að leggja höfuðið í bleyti.

Aðalfundur Litla leikklúbbsins 2023

Litli leikklúbburinn á Ísafirði boðar til aðalfundar í Rögnvaldarsal í Edinborgarhúsinu, fimmtudaginn 25. mai kl. 19.30.

Dagskrá aðalfundar:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Inntaka nýrra félaga.
3. Skýrsla formanns.
4. Skýrsla gjaldkera.
5. Lagabreytingar.
6. Kosning stjórnar, varamanna og skoðunarmanna reikninga.
7. Ný stjórn tekur við.
8. Hugmyndir um starfsemi næsta leikárs.
9. Önnur mál.

Boðið verður upp á léttar veitingar á fundinum og verkefni haustsins, uppsetning á söngleik í samstarfi við TÍ, kynnt.

Nýir og gamlir félagar hjartanlega velkomnir, vonumst til að sjá ykkur sem flest.

Bestu kveðjur, stjórnin

Viðburður á Facebook

Ný stjórn LL kosin á aðalfundi

Aðalfundur Litla leikklúbbsins var haldinn í Edinborgarhúsinu þriðjudaginn 19. apríl 2022.

Formaður síðustu ár hefur verið Sunna Einarsdóttir en vegna flutninga yfirgefur hún nú stjórnina. Eru henni færðar bestu þakkir fyrir vel unnin störf, ekki síst við gerð miðasölukerfis og uppfærslu heimasíðu félagsins.

Gunnar Ingi Hrafnsson, stjórnarmaður LL, var kjörinn nýr formaður á aðalfundinum. Þá tóku Dóra Hlín Gísladóttir og Dagný Hermannsdóttir sæti í stjórn. Ólafur Halldórsson og Tinna Ólafsdóttir sitja áfram.

Svavar Konráðsson kom nýr inn sem varamaður og Edda Björk Magnúsdóttir situr áfram sem varamaður.

Á fundinum voru einnig ræddar hugmyndir um starfsemi næsta leikárs og áætlar ný stjórn að halda opinn félagsfund síðar í vor til að fara yfir næstu skref.