Sýningum á Fiðlaranum á þakinu lauk með troðfullri lokasýningu þann 16. febrúar. Við gætum ekki verið ánægðari með viðtökurnar enda mættu yfir 1200 gestir á þessar 10 sýningar sem í boði voru.

Nú þegar sýningum er lokið er stjórn Litla leikklúbbsins þakklæti efst í huga, þakklæti til samfélagsins sem studdi svo vel við bakið á okkur með því að mæta vel í leikhúsið ig lofa sýninguna á samfélagsmiðlum og á götum úti. Stuðningurinn var líka veittur með allskonar aðstoð, styrkjum og velvild. Það er greinilegt að Litli leikklúbburinn á marga hauka í horni.

Síðast en ekki síst erum við þakklát fyrir hópinn sem stóð að uppfærslunni. Vinnan sem þessir snillingar lögðu á sig var á stundum þung og krefjandi en alltaf full gleði og sköpunarkrafti.

Næstu skref hjá klúbbnum er að sækja um að komast á fjalir Þjóðleikhússins sem athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins. Síðan þarf auðvitað að halda félagsfund og ákveða hvaða verkefni verður næst fyrir valinu. Stefnt er á að setja upp sýningu strax aftur í haust og því ekki seinna vænna að leggja höfuðið í bleyti.