Það er með sérstaklega mikilli ánægju sem við bjóðum ykkur velkomin í leikhúsið í þetta sinn. Vissulega eru leiksýningar ekki alveg með hefðbundnum hætti enn, það hefur til dæmis verið mun algengara hingað til að leikarar beri grímur en áhorfendur. Vonandi eru þó bjartari tímar framundan í sviðslistum og við í LL hlökkum til að kokka upp fleiri spennandi verkefni á næstu misserum sem verður gaman að geta sýnt fyrir full(bólu)setnu húsi. 

Til að gefa ykkur tækifæri til að dusta rykið af betri fötunum og teygja vel á brosvöðvunum bjóðum við ykkur nú að fylgjast með farsakenndum undirbúningi hins fullkomna brúðkaups. Líkt og alvöru skopleikjum sæmir mun hurðum vera skellt, misskilningar skapast og hvítar lygar vinda upp á sig.

Að setja leiksýningu á svið í miðjum heimsfaraldri er ekkert grín og hefur reynt mikið bæði á þolinmæði og taugar leikhópsins. Öll sem koma að sýningunni eiga því sérstaklega mikið hrós og þakkir skildar fyrir að leggja á sig alla þá vinnu sem þurfti til að Fullkomið brúðkaup gæti orðið að veruleika.

Við vonum að þið njótið sýningarinnar!
Stjórn Litla leikklúbbsins