Leikstjóri

Elín Sveinsdóttir

,,Þetta verður fullkomið brúðkaup‘‘

Það er hægt að segja það að húmor hafi fylgt mér alla ævi. Það var því ekki erfitt að ákveða að farsi yrði fyrir valinu fyrir Litla leikklúbbinn í þetta skipti. Eftir að hafa frussað hálfum kaffibolla úr hlátri yfir handritinu var ekki aftur snúið. Ferlið byrjaði á því að finna leikara í verkið, við erum afar heppin með hæfileikaríkt fólk í þessu bæjarfélagi og hópurinn var klár strax í haust. Covid skall síðan hraustlega á samfélagið allt og sýning sem að átti að frumsýna í október frestaðist fram yfir áramót.

Leikstjóri sýningarinnar, ég, hef lengi starfað við leikhús, leikið á sviði og sungið við ýmis tilefni. Ég hef alla tíð haft gaman af því að skemmta fólki og var ákveðin frá byrjun að leggja leiklistina fyrir mig. Eftir að hafa tekið þátt í öllum leikritum sem í boði voru á stór-Ísafjarðarsvæðinu lá leið mín til Bretlands, þar fór ég í leiklistarskóla í þrjú ár. Ég hefði í rauninni viljað vera í leiklistarskólanum til fertugs, það var svo rosalega gaman. Þegar ég svo kom heim með breska hreiminn og bros á vör fór ég síðan í Listaháskóla Íslands í mastersnám í listkennslu. Eftir útskrift hef ég síðan starfað í skólum bæjarins og leikstýrt hinu og þessu inn á milli. 

Það gleður mig því að hafa fengið að leikstýra þessum frábæra hóp, á þessum skrýtnu tímum. Enn og aftur sýnir það sig og sannar að leiklistin sameinar fólk og ég hef kynnst æðislegu fólki fyrir lífstíð. Nú er bara að njóta, góða skemmtun!

Því þetta verður jú, fullkomið brúðkaup!