Fullkomið brúðkaup í heimsfaraldri?

Litli leikklúbburinn á Ísafirði hóf undirbúning haustið 2020 á farsa sem ber nafnið Fullkomið brúðkaup. Höfundur verksins er Robin Hawdon og þýðandi er Örn Árnason. Leikritið gerist á degi hins „fullkomna brúðkaups“ og undirbúningur í fullum gangi. Brúðurin er á leiðinni með foreldrum sínum, faðir brúðarinnar er tilbúinn með nálasettið til þess að falda kjólinn. Álagið á verðandi eiginkonu brúðgumans er mikið, hún hefur háar væntingar og sættir sig ekki við neitt nema fullkominn dag. Brúðguminn hins vegar vaknar þunnur eftir trylltasta steggjapartý aldarinnar og man lítið sem ekki neitt, ekki bætir úr skák að veislustjórinn hafði skipulagt steggjapartý, veislu og brúðkaupsnóttina sjálfa allt á sama sveitahótelinu. Í kjölfarið fer af stað bráðfyndin atburðarrás mislukkaðra vina, brjálaðrar tengdamóður og veislustjóra sem er ekki tilbúinn með neitt og hvað þá að takast á við daginn.

Í leikritinu eru aðeins sjö hlutverk en þau skipa Andri Fannar Sóleyjarson, Ásrós Helga Guðmundsdóttir, Edda Björk Magnúsdóttir, Jónas Þór Birgisson, Magni Jóhannes Þrastarson, Sædís Ólöf Þórsdóttir og Steinunn Ása Sigurðardóttir.

Áhugaleikhús krefst mikillar vinnu, vinnan er fjölbreytt og skemmtileg og fólk á öllum aldri kemur saman og hefst handa. Í nútímasamfélagi getur þó verið flókið að finna hóp af fólki sem hefur tíma, því þetta tekur jú dágóðan tíma og krefst mikilla æfinga. Eftir áheyrnarprufur og hugmyndavinnu var kominn hópur fólks sem var tilbúið að takast á við verkefnið. Leikhúsið virkar oft eins og stór fjölskylda, hópurinn verður þéttur, fólk eignast nýja vini og platar frænkur og frændur, mömmu og pabba og jafnvel afa og ömmur til þess að koma saman og vinna að því að sýningin verði að veruleika.

Árið 2020 ætlar þó að verða afar flókið þegar kemur að viðburðum, leikmyndin hefur staðið tilbúin frá því í október og leikarar bíða spenntir eftir að fá að púðra sig og stíga á svið. Eftir allt erfiðið og allskonar tilfinningar sem tengjast óvissu heimsfaraldursins væri þó gott fyrir litla samfélagið okkar að komast í leikhús og hlæja allhressilega.